Viðskipti innlent

Uppsagnir hjá Össuri í Ameríku

Á kynningu í BNA. Össur kynnti fyrir áramót í Bandaríkjunum nýja tegund af gervhné. Í forgrunni er Jón Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins.
Á kynningu í BNA. Össur kynnti fyrir áramót í Bandaríkjunum nýja tegund af gervhné. Í forgrunni er Jón Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins.

Össur hf. ætlar að endurskipuleggja hluta af starfsemi félagsins í Norður-Ameríku, að því er fram kemur í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallar Íslands í dag.

Endurskipulagningin er sögð þáttur í samþættingaráætlun félagsins í kjölfar kaupanna á stuðningstækjafyrirtækjunum Royce Medical og Innovation Sports í Bandaríkjunum.

Á árinu ætlar Össur að loka starfsstöð félagsins í Bothell í Washington, útvista fjöldaframleiðslu á spelkum og stuðningsvörum frá Norður-Ameríku til Asíu, flytja starfsstöð félagsins í Kanada í minna húsnæði, sameina framleiðslu sérgerðra hnjáspelkna í Bandaríkjunum í Foothill Ranch í Kaliforníu og koma fyrir á einum stað starfsstöðvum Jerome Medical og Philadelphia Collar í Thorofare í New Jersey. Á sama stað verður sett upp dreifingarmiðstöð fyrir austurströnd Bandaríkjanna.

Fram kemur að í kjölfar endurskipulagningarinnar verði starfsmönnum Össurar í Norður-Ameríku fækkað um áttatíu. Félagið leggur áherslu á að veita fráfarandi starfsmönnum stuðning við umbreytingarnar, meðal annars í formi faglegrar ráðgjafar um starfsskipti, segir í tilkynningu til Kauphallar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×