Viðskipti innlent

Skyrtuframleiðandi keyptur

Frá undirritun samnings í Vilníus.
Marius Binkevicius, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Hansabank, Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP fjárfestingarbanka hf., Gestur Þórarinsson, Björn G. Gillberg, fulltrúi EBRD, og Markús Örn Þórarinsson.
Frá undirritun samnings í Vilníus. Marius Binkevicius, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Hansabank, Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP fjárfestingarbanka hf., Gestur Þórarinsson, Björn G. Gillberg, fulltrúi EBRD, og Markús Örn Þórarinsson.

Hlunnur ehf., sem er í eigu feðganna Þórarins Elmars Jensen og Markúsar og Gests Þórarinssona, sem áður ráku 66°Norður, hefur keypt skyrtuframleiðandann AB Vilkma í Litháen. AB Vilkma framleiðir hágæðaskyrtur fyrir þekkt vörumerki í Vestur-Evrópu, eins og Eton, Marks & Spencer og Faconnable, og markaðssetur einnig sín eigin vörumerki í Litháen.

Fyrirtækið var einkavætt eftir að Litháen hlaut sjálfstæði 1991 og þar starfa um 400 manns. Seljendur eru Evrópski þróunarbankinn, EBRD, og Þróunarsjóður Skandinavíu í Eystrasaltslöndunum. Sjóðirnir yfirtóku fyrirtækið 1996, skiptu um áherslur í rekstrinum og fóru úr fjöldaframleiðslu í framleiðslu á sérhæfðri hágæðavöru.

MP fjárfestingarbanki var fulltrúi kaupenda og Hansabank annaðist söluna. Skilmálar við kaupin hafa ekki verið birtir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×