Viðskipti innlent

Stelios hefur ekki gert upp hug sinn

Stelios Haji-Ioannou, stofnandi easy­Jet. Aðaleigandi EasyJet hefur ekki gert upp hug sinn hvort hann muni selja FL Group hlut sinn.
Stelios Haji-Ioannou, stofnandi easy­Jet. Aðaleigandi EasyJet hefur ekki gert upp hug sinn hvort hann muni selja FL Group hlut sinn.

Stofnandinn og stærsti eigandi easy­Jet, Stelios Haji-Ioannou, segir í viðtali við Evening Standard að hann hafi ekki gert upp hug sinn hvort hann myndi fallast á hugsanlega yfirtöku FL Group. "Ég er hvergi nærri því að selja. Ég tel enn að bréfin eigi meira inni."

Hlutabréf í lággjaldaflugfélaginu hækkuðu talsvert í Kauphöllinni í London í gær eftir að félagið birti tölur yfir farþegafjölda í desember. Þær sýndu um ellefu prósenta aukningu samanborið við desember árið 2004. Sætanýting stóð í stað, var rétt um 80,5 prósent í mánuðinum.

Einnig sýndu óendurskoðaðar tölur að tekjur easyJet höfðu aukist um meira en fimmtung á tólf mánaða tímabili.

Gengi bréfanna fór í fyrsta skipti í þrjú og hálft ár yfir 400 pens á hlut sem er tæplega átta prósenta hækkun frá föstudegi.

Stjórn easyJet hefur ráðið fjármálafyrirtækið Goldman Sachs sér til halds og trausts. Um helgina fullyrti Sunday Times að stjórnendur flugfélagsins líti alvarlegum augum á stöðu FL Group innan hluthafahópsins og ætli sér að verjast hugsanlegri óvinveittri yfirtöku íslenska félagsins, sem er annar stærsti hluthafinn á eftir Stelios og systkinum hans Polys og Clelia sem halda utan um fjörtíu prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×