Innlent

Gunnarsstofnun fagnar upplýsingum um Nóbelsverðlaun

MYND/smk

Stofnun Gunnars Gunnarssonar fagnar því að loksins skuli komnar fram upplýsingar sem varpa ljósi á ástæður þess að Gunnar Gunnarsson varð ekki þess heiðurs aðnjótandi að taka við Nóbelsverðlaunum í Stokkhólmi 1955.

Í yfirlýsingu frá stofnun Gunnars Gunnarssonar segir að svo virðist sem skáldið hafi ekki verið metið af framlagi sínu til heimsbókmenntanna heldur hafi óréttmæt sjónarmið verið lögð til grundvallar við ákvörðun sænsku akademíunnar. Stjórn stofnunarinnar segir að nú þegar hálf öld sé liðin frá því Íslendingar eignuðust Nóbelskáld er tímabært að hið sanna komi fram og gögn akademíunnar munu væntanlega leiða sannleikann í ljós þegar leynd verður létt af þeim.

Stjórnin segir Íslendinga hafa átt tvo framúrskarandi rithöfunda á 20. öld sem báðir voru álitnir verðugir kandídatar til að taka við æðstu viðurkenningu í bókmenntum. Aðeins öðrum þeirra hlotnaðist heiðurinn en verk beggja lifa. Gunnarsstofnun hvetur til málefnalegrar umræðu og umfjöllunar um ævi og verk stórskáldanna sem eiga annað og betra skilið en aðdróttanir og upphrópanir fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslenskrar menningar. Þjóðin hefur með veglegum hætti heiðrað minningu þeirra með því að koma á fót menningarsetri að Skriðuklaustri og safni að Gljúfrasteini. Á báðum stöðum gefst gestum tækifæri á að kynna sér skáldin en andagiftin og orðsnilldin lifa í verkum þeirra.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×