Innlent

KR-áskorun tekin af heimasíðunni

Áskorun á heimasíðu KR, þar sem formaðurinn Guðjón Guðmundsson, hvetur KR-inga til að greiða Kjartani Magnússyni borgarfulltrúa og Benedikt Geirssyni starfsmanni ÍSÍ atkvæði í prófkjöri sjálfstæðismanna sem hófst í dag, hefur verið fjarlægð af heimasíðunni.

Í fréttum Bylgjunnar í hádeginu í dag kom fram að formaðurinn hvatti KR-inga til að styðja frambjóðendurna Benedikt Geirsson og Kjartan Magnússon í þau sæti sem þeir óska eftir í prófkjörinu.

Björn Magnús Björgvinsson, varaformaður KR, sagðist ekki vita til þess að pistillinn hefði verið fjarlægður af heimasíðunni. Hann taldi formannspistilinn í takt við það sem viðgengjust hjá íþróttafélögum í landinu.

Hann sagði að KR hefði átt gott samstarf við Reykjavíkurlistann í tólf ár og félagið myndi að sjálfsögðu mæla með frambjóðendum sem hefðu stutt íþróttahreyfinguna vel í prófkjöri annarra flokka. Hann sagði þó engan lista yfir þá frambjóðendur fyrir hendi.

Reykjavíkurborg veitti 300 milljónum í byggingastyrki til íþróttafélaga í ár og 716 milljónum í húsaleigu og æfingastyrki. Starfsmenn í Ráðhúsinu segjast ekki geta gefið upplýsingar um skiptinguna milli félaga fyrr en á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×