Sport

Woodgate er klár í slaginn í kvöld

NordicPhotos/GettyImages
Enski varnarmaðurinn Jonathan Woodgate hjá Real Madrid segist vera klár í slaginn á sál og líkama og vonast til að fá að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið í kvöld, þegar Real mætir Atletic Bilbao. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Extra klukkan 19:55 og verður sýndur síðar um kvöldið á Sýn. "Mig hefur dreymt um þetta augnablik síðan ég kom hingað og nú veit ég að styttis í að ég fái tækifærið. Það hefur verið mér sem þráhyggja að ná fyrra formi og nú er það að takast. Ég er mjög ánægður með að vera loksins orðinn heill," sagði Woodgate, en hann hefur ekki spilað einn einasta leik með aðalliði síðan hann kom til Real frá Newcastle, fyrir næstum einu og hálfu ári síðan. Real Madrid hefur gengið hörmulega í síðustu leikjum í spænsku deildinni og það er mál manna að verulega sé farið að hitna undir þjálfaranum Luxemburgo, en það er fyrst og fremst varnarleikur liðsins sem veldur því vandræðum. Heilladísirnar hafa þó ekki verið á bandi liðsins heldur, því nokkrir undarlegir og ósanngjarnir dómar hafa fallið gegn liðinu í undanförnum leikjum og ekki verið til að bæta ástandið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×