Viðskipti innlent

Atvinnuleysi ekki minna í 4 ár

Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í fjögur ár og mælist nú tvö prósent. Bankarnir segja þenslu og verðbólgu á næsta leiti. Atvinnuleysi mældist aðeins tvö prósent í júlímánuði og hefur ekki mælst minna frá því í desember árið 2001. Bankarnir spá því að atvinnuleysi fari undir tvö prósent og launaskriði og verðbólgu í framhaldinu. Björn Rúnar Guðmundsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir mikla spennu vera á innlendum vinnumarkaði og bendi allt til að verðbólga verði meiri hér á landi en í viðskiptalöndunum í kringum okkur. Hann segir enn fremur að það sé aldrei slæmt að hafa lítið atvinnuleysi, það sé betra að hafa mikla vinnu en litla. Hins vegar aukist hættan á þenslu á vinnumarkaði eftir því atvinnuleysið minnki. Bankarnir sjá fyrir sér áframhaldandi þenslu. Verðbólgunan muni síðan klippa af auknum kaupmætti sem myndast hefur en kaupmáttur fólks hefur aukist um rúm 3 prósent síðasta árið, mest á almennum markaði. Þá hafa laun hækkað, um rúmlega 6,8 prósent á almennum markaði og um 6,1 prósent hjá hinu opinbera. Á þessu sama 12 mánaða tímabili var verðbólga um 3,5 prósent sem þýðir að hrein kaupmáttaraukning hefur verið 3,1 prósent síðasta árið. Bankarnir benda á að hækkandi húsnæðisverð er það sem skiptir langmestu máli í verðbólgunni en án húsnæðisverðsins er verðbólgan innan við eitt prósent. Miðað við þá tölu er kaupmáttaraukningin í raun mun meiri. Hvað fasteignaverð varðar spá bankarnir áframhaldandi hækkunum út árið. Þá muni markaðurinn hins vegar hægja á sér og standa í stað um tíma. Síðan muni verð lækka, þó mismunandi mikið eftir staðsetningum og tegund húsnæðis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×