Viðskipti innlent

Hagnaðaraukning hjá Og Vodafone

321 milljóna króna hagnaður varð á rekstri Og fjarskipta hf. sem aftur skiptist í Og Vodafone og 365 prent- og ljósvakamiðla, eftir tekjuskatt á fyrri helmingi ársins 2005 samanborið við 222 milljóna króna hagnað miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 401 milljóna króna á fyrri árshelmingi en var 270 milljónir á síðasta ári. Handbært fé frá rekstri án fjármagnsliða nam 1.247 m.kr. Eigið fé félagsins nam 7.887 milljónum króna í lok júní og hefur aukist um 358 milljónir frá áramótum. Eiginfjárhlutfall er 37,1%. Veltufjárhlutfall var 0,92 í lok tímabilsins samanborið við 0,66 um áramót. Rekstur Og fjarskipta hf. hefur gengið vel fyrstu 6 mánuði ársins og er í mjög góðu samræmi við áætlanir. Ef tekjur 365 ljósvaka- og prentmiðla eru taldar með fyrstu 6 mánuði ársins 2004 þá er tekjuvöxtur samstæðunnar um 18% fyrstu 6 mánuði ársins 2005. Tekjuaukningin hjá 365 prentmiðlum hefur orðið 49% og einnig hafa aðrar tekjustoðir samstæðunnar, ljósvakamiðlar og fjarskiptahluti, einnig skilað góðum vexti, að sögn Eiríkus S. Jóhannssonar, forstjóri Og fjarskipta hf. Tekjur af sölu námu 3.764 m.kr. fyrstu 6 mánuði ársins 2005 og höfðu þær aukist um 14,5% miðað við sama tímabil í fyrra. Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2005 voru 1.946 m.kr. og höfðu þær aukist um ríflega 14% miðað við sama tímabil í fyrra. Heildartekjur 365 ljósvakamiðla og 365 prentmiðla námu 3.308 milljónum á fyrri hluta ársins og hafa þær aukist um 25,4% miðað við sama tímabil í fyrra. Þannig námu tekjur af ljósvakamiðlum 1.914 milljónum á fyrri hluta ársins og jukust um 12,6% miðað við sama tímabil í fyrra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×