Viðskipti innlent

Fullyrðingar séu óviðeigandi

Það er undarlegt að ríkisskattstjóri skuli láta uppi persónulega skoðun sína á skattkerfinu, segir framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Hann segir fullyrðingarnar óviðeigandi. Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri hefur áhyggjur af því að Íslendingar stofni í síauknum mæli fjárfestingafélög í svokölluðum skattaparadísum til að koma undan peningum. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að þótt ekki sé ólögmætt að stofna eignarhaldsfélög erlendis stangist það á við lög að gefa ekki upp eignir sínar eða tekjur og segir hann ríka þörf á að herða reglur um upplýsingaskyldu vegna tilfærslu fjármuna til útlanda. Hann segir fjölmargar ábendingar hafa borist skattyfirvöldum um hugsanleg skattsvik af þessum toga og séu mörg slík mál til rannsóknar. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir að upplýsingskylda fyrirtækja hér á landi sé í takt við það sem gangi og gerist í nágrannalöndunum. Guðjón segir mikilvægt að umhverfið hér sé samkeppnishæft við það sem gerist annars staðar. Allir geti verið sammála um að skattsvik séu af hinu slæma en ekki sé rétt að breyta reglum þannig að menn loki hér fyrir flæði fjármagns. Hann segir enn fremur að lykilatriðið sé að það séu engar hindranir fyrir því að þeir Íslendingar sem efnist erlendis geti fært fjármagnið til landsins án þess að greiða meiri skatta en þeir eigi kost á víða um Evrópu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×