Viðskipti innlent

Skrifað undir kaupsamning Símans

MYND/Páll Bergmann
Geir H. Haarde fjármálaráðherra undirritaði í dag kaupsamning fyrir hönd íslenska ríkisins við Skipti ehf. um kaup Skipta á 98,8 prósenta hlut ríkisins í Símanum. Kaupsamningurinn er gerður á grundvelli tilboðs sem Skipti ehf. gerðu í hlutabréf ríkisins í Símanum þann 28. júlí síðastliðinn, en það hljóðaði upp á 66,7 milljarða króna og var hæst þriggja tilboða sem bárust í eignarhlut ríkisins. Í tilkynningu frá einkavæðingarnefnd segir að kaupverðið miðist við gengisskráningu Seðlabanka Íslands 27. júlí 2005 og fari greiðslan fram innan 5 virkra daga frá því að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir og að því gefnu að stofnunin samþykki kaupin fyrir sitt leyti. Þá er nýjum eigendum skylt að uppfylla skilyrði ríkisins er fram koma í söluskilmálum. Þannig má enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, eignast stærri hlut í Símanum en 45 prósent fram að skráningu félagsins á aðallista í Kauphöll og ekki minna en 30 prósent af heildarhlutafé félagsins verður af hálfu kaupanda að bjóða almenningi og öðrum fjárfestum til kaups í síðasta lagi fyrir árslok 2007, en fyrir sama tíma skal félagið skráð á aðallista Kauphallarinnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×