Viðskipti innlent

KB banki stærri en Ísland

KB banki er orðinn stærri en Ísland. Eignir bankans eru nú meiri en framtaldar eignir allra heimila í landinu. Hagnaður bankans nam tæpum 25 milljörðum króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins, sem er meira en samanlagður hagnaður hinna bankanna. Hagnaður KB banka er fjórum milljörðum meiri en hagnaður Landsbanka og Íslandsbanka samanlagður. Þó gekk rekstur þeirra einnig mjög vel, en Íslandsbanki skilaði tíu milljarða króna hagnaði og Landsbankinn ellefu. Samtals nam hagnaður bankanna á fyrri helmingi ársins því um 45 milljörðum króna, en það jafngildir samanlögðum útgjöldum félagsmála-, forsætis- utanríkis-, umhverfis, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á heilu ári. Spurður að því hvaðan allir peningarnir koma sagði Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri KB banka, að mestu tekjurnar væru af fjárfestingar og banlkastarfsemi þar sem þeir væru að aðstoða fyrirtæki við yfirtökur og koma með fjármögnun og ráðgjöf inn í slík viðskipti. Einnig væri gengishagnaður af bæði verðbréfum og hlutabréfum erlendis á fyrri helmingi ársins. Eignir Landsbankans eru orðnar rúmur milljarður króna og Íslandsbanka um einn komma þrír milljarðar. En það má segja að KB banki sé orðinn stærri en Ísland, því eignir hans eru nú um 2.200 milljarðar króna, sem er nokkru meira en framtaldar eignir allra heimila í landinu. Hreiðar Már sagði að vel væri hægt að halda þessu áfram og sagði að KB banki væri númer 211 í heiminum og sjöundi stærsti banki Norðurlanda. Hann sagði KB banka hafa sett sér það markmið að vaxa hraðar en nokkur keppinautanna og verða einn af leiðandi bönum í Evrópu á fjárfestingabankasviðinu. Hreiðar Már segir að ekki sé of geyst farið og að banki sem vaxi hratt sé alls ekki áhættusamari en banki sem vaxi hægt eða standi í stað og með vextinum ráða bankarnir eigin örlögum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×