Erlent

Óvissa um uppruna tilræðismanna

Þrír menn voru handteknir á Heathrow flugvelli í gær á grundvelli heimilda laga um hryðjuverkastarfsemi. Yfirvöld neituðu því þó að handtakan stæði í tengslum við hryðjuverkaárásirnar á fimmtudag. "Þessar handtökur eru ekki á grundvelli upplýsinga um sprengingarnar í Lundúnum," sagði Brian Paddick hjá lögreglunni. Lögregla hefur óskað eftir því að almenningur sendi þeim myndir og myndbönd sem tekin voru nálægt sprengingunum fjórum. Leitarmenn héldu áfram vinnu sinni við að ná upp líkum í göngunum milli Russell Square og King's Cross. 21 lík hefur nú fundist þar. "Ég er hræddur um að það sé nógu margt fólk í Bretlandi sem er reiðubúið til að gerast íslamskir hryðjuverkamenn að það þurfi ekki að fá hryðjuverkamenn erlendis frá," sagði John Stevens, fyrrum yfirmaður Lundúnalögreglunnar, og vísaði til þess að tveir Bretar hefðu verið sakfelldir fyrir tilraunir til hryðjuverka. Paddick sagði hins vegar óljóst hvort hryðjuverkamennirnir væru breskir eða erlendir. Bresk blöð sögðu einn hinna grunuðu vera Mustafa Setmarian Nasar, Sýrlending sem grunaður er um að vera aðgerðastjóri al-Kaída í Evrópu og skipuleggjanda árásanna í Madríd í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×