Erlent

Ummæli múslímaprests olía á eld

Ummæli trúarleiðtoga múslima í Danmörku réttlæta hryðjuverk, segir talsmaður utanríkismála, í danska þingflokknum Venstre. Samflokksmaður hans og ráðherra stjórnarinnar, segir það skaða umræðu um innflytjendamál að trúarleiðtoginn kenni Bandaríkjamönnum um hryðjuverkin í London. Í viðtali við danska blaðið Politiken í gærkvöldi segir Troels Lund Poulsen, talsmaður utanríkismála annars stjórnarflokkanna í Danmörku, að með ummælum sínum hafi trúarleiðtoginn verið að réttlæta hryðjuverk. Að mati Poulsens er það ekki lögmætt viðhorf, eins og hann orðar það, að kenna Bandaríkjamönnum um, þannig bæti leiðtoginn olíu á eld öfgafullra múslima. Fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, nú menntamálaráðherra Danmerkur, Bertel Haarder, gagnrýnir múslimaleiðtogann fyrir að skaða umræðuna um innflytjendamál.Politiken talaði aftur við trúarleiðtogann og hann stendur enn við orð sín. Hann ítrekar að hann fordæmi harkalega hryðjuverkin í London, en segir að Bandaríkin hafi með hátterni sínu gert það að verkum að sumir múslimar fremji slík hryðjuverk. "Ég afsaka ekki hryðjuverkamennina," segir Mustafa Chandid. Þingmaður stjórnarandstöðuflokksins Einingalistans, segir svo Venstre menn ekki virða tjáningarfrelsið. Það má segja að danskur karlmaður hafi tekið lögin í sínar hendur þegar hann gekk inní strætó í Kaupmannahöfn í gær, sagði "London" og skallaði saklausan bílstjórann. Daninn fékk þannig útrás fyrir reiði sína eftir hryðjuverkin í London, en bílstjórinn er dökkur yfirlitum. Hafi reiðinni verið beint gegn aröbum, gerði sá danski hins vegar lítils háttar mistök, því bílstjórinn með túrbaninn á höfðinu var indverskur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×