Erlent

Fögnuður varð að hryllingi

Dagarnir sjötti og sjöundi júlí 2005 marka djúp spor í sögu Lundúnabúa, hvor með sínum hætti. Fyrri daginn ljómaði borgin af æstum fögnuði yfir því að hafa verið útnefnd til að hýsa Ólympíuleikana árið 2012, en morguninn eftir brast á hryllingur hryðjuverka þegar tugir létust og hundruð meiddust í röð sprenginga í almenningssamgöngukerfi borgarinnar. Árásin á borgina er sú óvægnasta síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þrátt fyrir að borgin væri í áfalli yfir atburðunum, var einkennileg ró yfir henni rétt eftir að sprengingarnar dundu yfir; starfsfólk borgarinnar lokaði og tæmdi neðanjarðarlestakerfi borgarinnar og fólk gekk hljóðlega leiðar sinnar. Þá var almenningi ráðlagt að halda sig frá miðborginni til þess að sjúkrabílar, lögregla og hermenn sem kvaddir voru til starfa kæmust þar greiðlega um. Almenningssamgöngur í Lundúnum voru lamaðar fram eftir degi í gær vegna árásanna og borgarhlutum lokað. Fólk sem þegar var komið til vinnu vissi ekki hvort eða hvernig það kæmist heim um kvöldið. Síðdegis mátti sjá í miðbænum gangandi fólk, þar sem það fór niðurlútt á heimleið, þrúgað af atburðum dagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×