Viðskipti innlent

Sniðgangi tilmæli eftirlitsins

Stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar telur að Fjármálaeftirlitið hafi ekki lagalegar heimildir til að krefja hvern einasta stofnfjáreiganda um upplýsingar um eign sína. Þá mælist sjóðsstjórnin óbeint til þess að þeir sniðgangi tilmæli Fjármálaeftirlitsins en feli sjóðsstjórninni að eiga samskipti við opinberar eftirlitsstofnanir. Hverjum og einum stofnfjáreigenda sé þó í sjálfsvald sett að eiga samskikpti við Fjármálaeftirlitið, ef þeir kjósi að gera það, segir ennfremur í bréfi stjórnarinnar. Fjármálaeftirlitið sendi öllum stofnfjáreigendum í sjóðnum bréf í síðustu viku þar sem það óskar eftir upplýsingum um hvern einasta stofnfjáreiganda um það hvort hann hafi selt stofnfé sitt í Sparisjóðnum, borist tilboð í það eða hvort hann hafi gerst aðili að samkomulagi um beitingu atkvæðaréttar á síðasta aðalfundi sjóðsins. Sem kunnugt er komst nýr meirihluti til valda á fundinum. Stofnfjáreigendum er þar gefinn tiltekinn frestur og minnt á heimildir Fjármálaeftirlitisns til að beita dagsektum, gera leit eða leggja hald á gögn, ef viðkomandi verða ekki við tilmælum þess. Í bréfi sem stjórn sjóðsins sendi öllum stofnfjáreigendum í gær segir að með þessu hafi Fjármálaeftirlitið farið á svig við stjórn sjóðsins sem sé hinn lögformlegi rétti aðili sem eftirlitið eigi að hafa samskipti við. Því til stuðnings er bent á að Fjármálaeftirlitið hafi ekki lögsögu yfir stofnfjáreigendum heldur yfir fjármálafyrirtækjum. Svo virðist því sem stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar sé þarna með óbeinum hætti að hvetja stofnfjáreigendur til að hunsa tilmæli Fjármálaeftirlitsins um upplýsingar frá þeim. Þeir stofnfjárfestar sem fréttastofan náði samabandi við í morgun sögðust vera að kanna stöðu sína í málinu og hefðu þeir ekki tekið ákvörðun um hvort þeir færu að tilmælum Fjármálaeftirlitsins eða stjórnar sjóðsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×