Erlent

Fimmtíu skæruliðar felldir

Bandarískar og írakskar hersveitir héldu í dag áfram stórsókn sinni gegn uppreisnarmönnum í vesturhluta landsins. Fimmtíu skæruliðar voru felldir þar í gær. Orrustuþotur og orrustuþyrlur eru notaðar til að styðja um eitt þúsund bandaríska landgönguliða og írakska hermenn sem taka þátt í hernaðaraðgerð sem gefið var nafnið „Rýtingur“. Orrustuþoturnar hafa varpað sprengjum á víghreiður uppreisnarmanna og þyrlurnar hafa skotið á þau eldflaugum. Tilgangurinn með þessum aðgerðum er að finna falin vopnabúr og fella eins marga uppreisnarmenn og unnt er. Fimmtíu eru sagðir hafa verið felldir í gær en ekki hefur verið getið um mannfall í röðum Bandaríkjamanna og Íraka. Harðar árásir hafa verið gerðar í grennd við bæinn Qaim sem er um tuttugu kílómetra frá sýrlensku landamærunum. Talið er að Qaim hafi verið miðstöð vopnasmyglara og skæruliða síðastliðin tvö ár. Læknar í bænum segja að tuttugu lík hafi verið flutt á sjúkrahús þeirra og margir tugir særðra manna. Þegar hermennirnir voru að kanna hús eitt í bænum fundu þeir fjóra Íraka sem hafði verið rænt og haldið í gíslingu. Þeim hafði verið misþyrmt og voru hlekkjaðir í dýflissu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×