Innlent

Múgæsing í Keflavík

Múgæsing hefur, að mati lögreglunnar, gripið um sig í Keflavík vegna tilrauna manns til að lokka börn upp í bíl til sín. Lögreglan mun hugsanlega standa vakt fyrir utan grunnskóla í Reykjanesbæ næstu daga. Á síðustu viku hefur tvisvar sinnum verið reynt að lokka drengi í fyrsta bekk upp í bíla utan við grunnskóla í bænum og var þeim meðal annars boðið sælgæti. Lögreglan í Keflavík vinnur að rannsókn málsins og fólk er hrætt. Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Keflavík, hvetur fólk til að halda ró sinni og leyfa lögreglu að rannsaka málið en taka ekki málið í sínar hendur. Í Holtaskóla var reynt að lokka ungan dreng upp í bíl í síðustu viku og það var brugðist hart við af hálfu skólayfirvalda. Jóhann Geirdal aðstoðarskólastjóri segir að þau hafi fyrst frétt af þessu frá móður drengsins og strax látið lögreglu vita. Einnig hafi þau beðið kennara um að ræða málið við nemendur sína, sérstaka á yngri stigum, til að byrgja brunninn.  Lögreglan í Keflavík vinnur áfram að rannsókn málsins en árið 2002 kom upp mál í Sandgerði þar sem tólf ára stúlka var lokkuð upp í rauðan fólksbíl og hún misnotuð. Sá maður hlaut dóm. Samkvæmt lýsingum drengjanna í Keflavík er bíll mannsins sem reyndi að lokka þá upp rauður og einnig bíllinn sem stúlkan úr Kópavogi var flutt nauðug með að Skálafellsafleggjara í vetur. Hvort tenging er þar á milli er ekki vitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×