Viðskipti innlent

Vilja reisa eitt álver í viðbót

 Við höfum áhuga á að reisa eitt álver á Íslandi í viðbót," segir Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs Norðuráls. Hann segir þó margt óljóst ennþá. Ekki sé vitað hvar næsta álver eigi að vera, hve stórt það verði og hvaðan orkan verði fengin. Málið sé á hugmyndastigi. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sagði á iðnþingi í mars að svigrúm væri til að reisa eitt álver til viðbótar hér á landi. Síðan hefur hún farið í fundarherferð um Norðurland til að kanna jarðveginn fyrir byggingu nýs álvers. Í því samhengi skiptir samstaða sveitarfélaga máli. Michael Dildine, yfirmaður fjárfestingatengsla Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls, segir þeim finnast mikið til viðskiptaumhverfisins á Íslandi koma. Það eigi við fjármálakerfið, tæknistig og vinnuafl. Því sé landið áhugaverður kostur og hægt að notast við innlent vinnuafl við verkfræðivinnu og uppbyggingu. Century Aluminium keypti Norðurál í apríl á síðasta ári. Í sama streng tekur Mark Lidiard, sem sér um fjárfestingatengsl BHP Billiton frá Ástralíu, fjórða stærsta álframleiðenda á vesturlöndum. Rekstrarumhverfið hér sé hagstætt, nálægðin við meginland Evrópu mikilvæg og möguleikar á umhverfisvænum orkugjöfum. Hann segir helstu stjórnendur fyrirtækisins hafa heimsótt landið og haldi umræðum um byggingu álvers opnum. Málið sé á byrjunarstigi. Samkvæmt upplýsingum frá öðru áströlsku álfyrirtækinu, Rio Tinto, er verið að skoða fjárfestingatækifæri á Íslandi. Hefur Rio Tinto aflað sér upplýsinga um rekstrarskilyrði hér á landi. Rusal frá Rússlandi hefur aflað svipaðra upplýsinga frá íslenskum stjórnvöldum. Alcan og Alcoa, sem þegar eiga hér álver ásamt Century Aluminium, ætla ekki að sitja hjá í þessum hræringum. Er því ljóst að sex heimsþekkt álfyrirtæki munu keppa um byggingu álvers náist sátt um málið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×