Viðskipti innlent

Meirihluti nýtir sér forkaupsrétt

Mikill meirihluti hluthafa í Morgunblaðinu hefur nýtt sér forkaupsrétt á hlut Haraldar Sveinssonar í blaðinu sem var til sölu. Nú er endanlega ljóst að ekkert verður af sölu á hlut Haraldar til hóps sem tengist Íslandsbanka en það eru Einar og Benedikt Sveinssynir, bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir í Bakkavör og feðgarnir Hjalti Geir og Erlendur Hjaltason. Haraldur hafði fallist á að selja þeim hlut sinn en með fyrirvara um forkaupsrétt hluthafa blaðsins. Að sögn Hallgríms Geirssonar, framkvæmdastjóri Morgunblaðsins, hafa forkaupsrétthafar þegar skrifað sig fyrir 16% hlut Haraldar í blaðinu en það þýðir að tilboð hópsins sem tengist Íslandsbanka gengur ekki eftir. Hallgrímur segir að formlega verði gengið frá kaupunum á morgun. Hann segir kaupverðið trúnaðarmál en líklegt má telja að verðmæti hlutarins hlaupi á hundruðum milljóna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×