Menning

Sogar í sig dansspor

"Ég kenni tvö aðskilin námskeið bæði í Árbæjarþreki og Magadanshúsinu. Á öðru námskeiðinu kenni ég hip hop dans. Það er í raun og veru sá dans sem er fyrir framan okkur allan daginn á MTV. Það er mjög fjörugur stíll sem listamenn eins og Missy Elliot, Chiara og Usher dansa. Hitt námskeiðið sem ég kenni er Jamaican rhythm og Modern magadans. Það er meiri hiti í Jamaican rhythm en hip hop-i og það er stefna sem listamenn eins og Sean Paul og Beyoncé byrjuðu með. Það er mikið "attitude" í þeirri stefnu og mikið um mjaðmahreyfingar," segir Brynja. En ætli strákar mæti nokkuð í þá tíma? "Reyndar hef ég eiginlega bara kennt stelpum en strákar eru auðvitað velkomnir ef þeir hafa áhuga. Þeir þurfa ekki að vera hræddir við þennan dansstíl." Brynja byrjaði á því í fyrra að blanda þessum tveim stílum saman, hip hop-i og Jamaican rhythm, en sá fljótt að það gekk ekki. "Þegar maður dansar magadans og Jamaican rhythm langar mann að halda endalaust áfram með þá stefnu. Það sama er að segja um hip hop þannig að þessar stefnur eru of breiðar til að blanda þeim saman. Það er allt of erfitt að fara úr einu í annað þannig að ég hef haldið þessu aðskildu." Brynja er algjörlega sjálflærð en fylgist vel með öllu því sem er að gerast í dansheiminum. "Ég hef verið að æfa magadans í þrjú eða fjögur ár og byrjaði í hip hop-i þegar ég var tíu ára hjá Orville í Kramhúsinu. Ég fylgist rosalega vel með því sem er að gerast í dansi og reyni að vera eins og svampur og soga í mig hina ýmsu stíla og spor. Ég hef oft setið heilu dagana fyrir framan MTV að horfa á dansspor. Þegar ég fer út á djammið reyni ég að grípa útlendinga og spyrja þá um hvernig þeir dansa og reyni að fylgjast með þeim," segir Brynja en draumur hennar er að fara út í heim og læra sem mest í dansi. "Ég var að sækja um í grafískri hönnun í Listaháskólanum en ég verð ekki ánægð nema ég geti unnið við bæði dans og hönnun. Síðan langar mig að fara út og henda mér í dansnámskeið úti og læra eins mikið og ég get. Mig langar að kenna dans eins lengi og ég get. Ég hlakka til að eldast og stækka við mig, læra fleiri stíla og jafnvel eignast mitt eigið dansstúdíó." Námskeið Brynju í Árbæjarþreki byrja 27. apríl en í Magadanshúsinu 1. maí. Hægt er að hafa samband við Brynju í síma 821 4499 og í gegnum tölvupóstinn hiphopdans@yahoo.com.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.