Innlent

Einhliða uppsögn ólögmæt

"Þetta sýnir og sannar að við höfðum enn einu sinni rétt fyrir okkur og hefur tvímælalaust fordæmisgildi fyrir aðra," segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að uppsagnir Varnarliðsins bandaríska á hluta starfstengdra kjara félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins væru ólögmætar. Rafiðnaðarsambandið stefndi utanríkisráðherra, sem fer með málefni Varnarliðsins, eftir að tilkynnt var um uppsagnir á greiðslu almenns rútugjalds og sérstakri greiðslu vegna ferðatíma þeirra starfsmanna sem ekki eru búsettir í næsta nágrenni við athafnasvæði Varnarliðsins. Var það mat Rafiðnaðarsambandsins, sem og annarra verkalýðsfélaga, að ekki væri hægt að segja upp þessum samningum einhliða og tók dómurinn undir þau sjónarmið. Þó aðeins Rafiðnaðarsambandið hafi sótt málið telur Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs og sjómannasambands Keflavíkur og nágrennis, að úrskurðurinn muni einnig gilda fyrir aðra sem svipað er ástatt um. "Þessi mál eru öll að vinnast enda lögin okkar megin og nú þarf að bíða og sjá hvort þessum úrskurði verði áfrýjað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×