Innlent

Við­reisn og Fram­sókn dala en sósíal­istar yfir kjör­fylgi

Kjartan Kjartansson skrifar
Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins mynduðu ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 30. nóvember. Fylgi Viðreisnar og Flokks fólksins þokast niður á við í þjóðarpúlsi Gallup en Samfylkingin bætir aðeins við sig.
Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins mynduðu ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 30. nóvember. Fylgi Viðreisnar og Flokks fólksins þokast niður á við í þjóðarpúlsi Gallup en Samfylkingin bætir aðeins við sig. Vísir/Vilhelm

Fylgi Viðreisnar mælist nú tveimur prósentum minna en flokkurinn fékk í þingkosningunum í nýjum þjóðarpúls Gallup. Framsóknarflokkurinn dalar enn eftir sögulega lélega kosningu en Sósíalistaflokkurinn er tveimur prósentustigum yfir kjörfylgi sínu.

Viðreisn mælist með 13,8 prósent fylgi í könnun Gallup en flokkurinn hlaut 15,8 prósent atkvæða í kosningunum 30. nóvember. Könnunin var gerð dagana 16. desember til 1. janúar. Framsókn mælist með 6,3 prósent en fékk 7,8 prósent í kosningunum sem var hans versta útreið.

Sex prósent svarenda sögðust kjósa Sósíalistaflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag. Flokkurinn hlaut fjögur prósent atkvæða í kosningunum og náði ekki inn manni á þing.

Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka. Samfylkingin bætir við sig rúmu hálfu prósentustigi frá kosningunum og mælist með 21,4 prósent í könnuninni. Sjálfstæðisflokkurinn hífir sig aðeins upp tuttugu prósent fylgi.

Flokkur fólksins mælist með 13,1 prósent en fékk 13,8 prósent atkvæða upp úr kjörkössunum. Miðflokkurinn stendur í stað, mælist með 12,4 prósent en fékk 12,1 prósent atkvæðanna fyrir rúmum mánuði.

Fylgi Pírata og Vinstri grænna, sem duttu út af þingi í kosningunum, haggast ekki og stendur í þremur prósentum annars vegar og rúmum tveimur prósentum hins vegar. Lýðræðisflokkurinn mælist með 1,6 prósent en hlaut eitt prósent í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×