Menning

Sinna hinum ósnertanlegu

Þeir eru að ljúka fjórða ári í læknisfræði, ævintýramennirnir Dagur og Brynjólfur og hafa verið í verklegu námi í vetur. Nú fá þeir að treysta á kunnáttuna við framandi og frumstæðar aðstæður og eru greinilega fullir eftirvæntingar. "Við ætlum að vera á Indlandi í tæpa þrjá mánuði og munum einkum starfa á heilsugæsluustöð í héraðinu Andhra Pradesh þar sem einn læknir er fyrir. Líka fara út í héruðin í vitjanir, þar sem við kynnumst eflaust örbirgðinni. Svo verðum við á sjúkrahúsi í borginni Vijayawada. Þar hafa sérfræðingar lofað að taka á móti okkur og leyfa okkur fylgjast með aðgerðum og slíku, þannig að þetta verður mjög lærdómsríkt," segir Dagur. Brynjólfur tekur undir það og nefnir sjúkdóma eins og holdsveiki, eyðni og berkla sem algengir eru meðal innfæddra. "Það verður ýmislegt að glíma við sem við höfum ekki kynnst áður, að ekki sé minnst á tungumálaörðugleikana," segir hann og er þó hvergi banginn. Dalítar eru stundum nefndir "hinir ósnertanlegu" og eru algerlega réttlausir í landinu. "Efri stéttirnar líta svo á að ef þær eru snertar af Dalítum eða skuggi af Dalíta fellur á þær þá hafi þær óhreinkast. En þetta eru þeir sem þurfa mest á okkur að halda," segir Dagur brosandi. Piltarnir fara ekki einir, unnusta Dags, Auður Birna Stefánsdóttir mannfræðingur og Svana Rún Símonardóttir, félagsráðgjafi og vinkona Brynjólfs, fara líka. Þær munu fást við kennslu. "Það er skóli við hliðina á spítalanum. Þar er verið að kenna börnum sem foreldrar hafa orðið að selja í þrælkun en kirkjan er búin að kaupa úr ánauðinni. Það er nefnilega Hjálparstofnun kirkjunnar sem stendur á bak við þetta allt," segir Brynjólfur til skýringar. Aðspurðir segja þeir um algert sjálfboðaliðastarf vera að ræða af þeirra hálfu. "Við erum að leita eftir styrkjum fyrir farinu, láttu það endilega berast," segja þeir glaðlega að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.