Viðskipti innlent

Samskip sækir inn í Rússland

Samskip hafa opnað nýjar skrifstofur í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Í tilkynningu segir að þetta sé til að sinna ört vaxandi starfsemi félagsins í þessum löndum og efla enn frekar sókn Samskipa inn á rússneska markaðinn og áfram austur á bóginn. Eystrasaltsskrifstofurnar, sem staðsettar eru í Tallin, Ríga og Klaipeda, styrkja enn frekar stöðugt vaxandi gámaflutninganet Samskipa erlendis og felst þjónustan fyrst og fremst í umfangsmikilli flutningastarfsemi á sjó, landi og í lofti, þar sem sinnt er jöfnum höndum alhliða flutningamiðlun og gáma-, frysti- og stórflutningum. „Við ætlum að styrkja stöðu okkar á þessum mörkuðum með því að koma betur á framfæri þeim skraddarasaumuðu heildarlausnum á öllum sviðum flutninga sem Samskip bjóða upp á. Þar gegna nýju skrifstofurnar mikilvægu hlutverki,“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Samskipum erlendis en Eystrasaltsskrifstofurnar heyra undir höfuðstöðvar Samskipa í Rotterdam. Náið samstarf verður við skrifstofur félagsins í Rússlandi og Úkraínu til að ná fram sem mestri hagkvæmni. „Þungamiðja flutningastarfsemi í Evrópu er að færast austar og hér höfum við sterka stöðu, hvort sem um er að ræða flutningsmiðlun áfram austur á bóginn með skipum, lestum eða flutningabílum,“ segir Björn. Einnig hafa Samskip tekið að sér að vera umboðsaðili japanska skipafélagsins Mitsui O.S.K. Lines í Eystrasaltslöndunum þremur en félagið hefur verið umboðsaðili Mitsui í Rússlandi frá árinu 2001. „Með auknu samstarfi við Mitsui og tilkomu nýju Eystrasaltsskrifstofanna erum við mun betur í stakk búin til að sinna stöðugt vaxandi flutningum austur á bóginn til Rússlands og áfram til fyrrum Sovétlýðvelda, sem og fleiri áfangastaða í Mið-Asíu,“ segir Björn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×