Viðskipti innlent

Bræðsla líður undir lok í borginni

Í athugun er hjá HB Granda að flytja síldar- og loðnubræðslu félagsins úr Örfirisey í Reykjavík til Vopnafjarðar. HB Grandi starfrækir nú þegar fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði eftir sameiningu félagsins við Tanga fyrr á árinu. Verði af flutningi verksmiðjunnar lýkur síldar- og loðnubræðslu í Reykjavík en slík starfsemi hefur verið rekin í höfuðborginni um áratuga skeið. Verksmiðjan í Örfirisey var reist í kringum 1950 en bræðsla hófst ekki fyrr en 1965. Fyrir hafði fiskimjölsbræðslan Klettur verið starfrækt í Reykjavík en þar var bræðslu hætt 1993. Mörgum er reykháfur Klettsverksmiðjunnar við Sundahöfn enn í fersku minni en hann var felldur fyrir nokkrum árum. Lykt, sem sumir kalla fýlu, lagði í eina tíð af bræðslunni í Örfirisey og bárust fyrirtækinu kvartanir frá borgurum auk þess sem fullyrt var að hún fældi ferðamenn frá Reykjavík. Aukinn mengunarvarnabúnaður hefur snardregið úr þessari óáran. HB Grandi rekur líka beinabræðslu í Örfyrisey en ekki eru uppi áform um að flytja hana.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×