Viðskipti innlent

Og Fjarskipti hafa ekki kvartað

Samkeppnisstofnun hefur ekki fengið formlegar athugasemdir frá Og Fjarskiptum eða beiðni um endurupptöku nýrra reglna sem hún setti fjarskipta- og fjölmiðlasamsteypum Og Vodafone og 365 ljósvakamiðlum, og samsteypu Símans og Skjás eins. Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, segir ekki hægt að svara ásökunum Og Fjarskipta fyrr en formlegt erindi berist. Ekki sé hægt að taka afstöðu til þess hvort breyta þurfi reglunum fyrr en þeir sjái rökstuðning fyrir því. Reglurnar endurspegli ólíka stöðu fyrirtækjanna: "Landssíminn er markaðsráðandi fyrirtæki á fjarskiptamarkaði en 365 ljósvakamiðlar er með sterka stöðu á sjónvarpsmarkaði," segir Guðmundur: "Það væri í sjálfu sér fráleitt að samskonar skilyrði væru fyrir báðum samrununum út af mismunandi vægi fyrirtækjanna." Og Fjarskipti segja stofnunina mismuna fyrirtækjasamsteypunum með ólíkum skilyrðum um dreifingu sjónvarpsefnis. Skjár einn geti krafist að myndlyklar þeirra séu einungis notaðir til að dreifa sjónvarpsefni þeirra. Það geti 365 ljósvakamiðlar ekki.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×