Innlent

Greiði börnum Sri 22 milljónir

Hákon Eydal, banamaður Sri Rahmawati, fékk í dag sextán ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann var að auki dæmdur til að greiða þremur börnum Sri tæpar 22 milljónir króna í skaðabætur. Hákon sagði í samtali við fréttamann að hann teldi dóminn frekar þungan. Hákon Eydal varð barnsmóður sinni, Sri Rahmawati, að bana í byrjun júlí í fyrra. Fjölskylda hennar hafði af henni áhyggjur þegar ekkert hafði af henni frést í nokkra daga og grunaði lögreglu Hákon fljótlega um að hafa orðið henni að miska. Það var hins vegar ekki fyrr en tæpum mánuði eftir að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald að hann játaði á sig morðið. Hákon hafði falið líkið af Sri í gjótu í Hafnarfirði en afvegaleiddi lögreglu lengi vel um staðsetningu þess. Í dag fékk hann svo dóm, sextán ára fangelsi að frádreginni gæsluvarðhaldsvist. Hákon sagði aðspurður að dómurinn hefði verið nokkur þungur. Brynjar Níelsson, verjandi Hákons, lýsti því strax yfir að dómnum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Hann bendir á að við ákvörðun refsingar hafi ekki verið tekið tillit til raka sem lúta því við hvaða aðstæður verknaðurinn var framinn, forsögu málsins, en í hegningarlögum séu ákvæði sem heimili að tillit sé tekið til þess. Hákon Eydal gerði engar athugasemdir við skaðabótakröfu saksóknara við aðalmeðferð málsins. Verjandi hans telur þó ólíklegt að hann muni nokkurn tíma hafa efni á að greiða þær. Hann segir að það sé ekki svo miklar tekjur að fá í fangelsi að Hákon geti ráðið við það. Það sé útilokað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×