Menning

Eflir þjónustu og þróar samskipti

"Já, ég er búin að vera viðloðandi þennan bankageira nokkuð lengi," segir Inga Rósa brosandi þegar hún er spurð hvort hún kunni vel við sig innan um peningana. Hún kveðst vinna á sölu- og markaðssviði en deildin hennar sé ný af nálinni. "Hlutverk okkar er að vinna að því að efla þjónustuna og þróa samskiptin við viðskiptavinina. Ég var áður að vinna í fjárstýringu bæði hjá Landsbankanum og Búnaðarbankanum sem er töluvert ólíkt því sem ég er að gera í dag. Þar var ég í millibankaviðskiptum en nú verð ég aðeins meira í snertingu við viðskiptavini útibúanna. Þetta er skemmtileg breyting og mjög öflugur hópur sem ég er að vinna með. Við erum sex í þessu þróunarstarfi og munum vinna með framlínufólkinu í útibúunum við að aðlaga þjónustuna og vöruframboðið á hverjum tíma. Þetta er allt í mótun og bara gaman að taka þátt í því. Það er að minnsta kosti nóg að gera," segir Inga Rósa glaðleg og upplýsir aðspurð að oft komi tarnir en rólegri tímar komi þess á milli. Hún kveðst eiga mann og tvo syni en eldri drengurinn sé það stór að hann sjái um að taka á móti yngri bróður sínum úr skólanum. "Svo eru afarnir og ömmurnar mjög dugleg að hjálpa til. Þannig rúllar þetta," segir hún. Að lokum er forvitnast aðeins um áhugamálin. "Við höfum gaman að allri útivist. Yfir vetrartímann förum við töluvert á skíði og á sumrin ferðumst við mikið innanlands," segir Inga Rósa og þar með hleypum við henni aftur að vinnuborðinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.