Viðskipti innlent

Reynt að skýra verkaskiptingu

Gerð er tilraun til að draga úr óvissu um verkaskiptingu í eftirliti með verðbréfamarkaði með sameiginlegri yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins og Kauphallar Íslands. Yfirlýsingunni er ætlað að skýra betur verkaskiptinguna á milli þessarra tveggja stofnana og auka skilvirkni. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að von stofnananna sé sú að félög á markaði og fjölmiðlar skynji betur það samstarf sem eigi sér stað á milli Kauphallarinnar og Fjármálaeftirlitsins og minni óvissa ríki um þá verkaskiptingu sem sé á milli stofnananna. Samstarfið hafi mótast á liðnum árum og sé að mörgu leyti mjög gott eins langt eins og það nái samkvæmt gildandi lögum. Verið sé að reyna að auka gegnsæi en jafnframt sé beðið eftir lagabreytingu sem geri störf stofnananna enn skýrari. Líkur eru á að nýtt frumvarp um verðbréfaviðskipti verði að lögum, en þar er m.a. kveðið á um aukið gegnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar. Spurður hvort nógu langt sé gengið í frumvarpinu segir Páll þetta sé skynsamlegt fyrsta skref en síðan megi velta fyrir sér hvort bæta megi við það, t.d. í auknu gegnsæi í því hvernig Fjármálaeftirlitið geti sagt frá niðurstöðum í athugunum á því hvernig stórir eigendur í bönkunum og vátryggingarfélögunum starfa.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×