Menning

Sjálfstæð hugsun lykilatriði

Jónína Vala Kristinsdóttir er ein af höfundum Geisla, en námsefnið samdi hún ásamt Guðbjörgu Pálsdóttur, Guðrúnu Angantýsdóttur og Guðnýju Helgu Gunnarsdóttur. "Nýja námsskráin sem kom út árið 1999 var lögð til grundvallar þessu námsefni, þar sem mikil áhersla er lögð á að nemendur skilji þau viðfangsefni sem þeir fást við og noti sína eigin hugsun," segir Jónína Vala. Jafnframt var stuðst við nýjar rannsóknir á því hvernig börn læra stærðfræði og rannsóknir á stærðfræðikennslu sem nýtist nemendum vel. "Með þessu nýja námsefni er áhersla lögð á að börnin skoði fyrst áður en kennarinn segir þeim til, þegar þau eru að læra um reikniaðgerðirnar," segir Jónína Vala og er þannig hvatt til þess að nemendur leysi dæmin sjálf á þann hátt sem þeim er eðlilegur. "Í ljós hefur komið að það að kenna eina aðferð hefur heftandi áhrif á hugsunina. Mikilvægt er að börnin noti sína eigin hugsun og útskýri sjálf þær aðferðir sem þau nota við reikninginn, en þannig skapa nemendur sína eigin þekkingu við námið," segir Jónína Vala og bætir því við að hugsun kennarans geti aldrei orðið hugsun nemandans. Jónína Vala segir að í aðalnámsskrá fyrir stærðfræði sé meðal annars kveðið á um tengsl við daglegt líf og það sé meðal þess sem þurfi að hafa í huga við gerð efnisins. "Við allt stærðfræðinámið þarf að hafa í huga að verkefnin séu eitthvað sem börnin þekkja. Að þau geti tengt námið við eitthvað sem þau hafa þekkingu á fyrir, þannig að verkefnin séu ekki í einhverju tómarúmi og séu um eitthvað sem er börnum skiljanlegt, "segir Jónína Vala.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×