Erlent

Hervélmenni notuð í Írak

Bandaríkjaher telur sig hafa fundið svarið við því hvernig eigi að ráða niðurlögum írakskra uppreisnarhópa. Verið er að setja saman sérsveit vélmenna sem send verða á vígvöllinn í mars. Þverrandi baráttuþrek, sívaxandi mannfall og minnkandi stuðningur almennings veldur því að Íraksstríðið verður Bandaríkjastjórn sífellt þyngra í skauti. Bandaríski herinn hefur nú fundið upp nýstárlega aðferð til að mæta þessum erfiðleikum. Alls verða átján vélbyssuvopnuð vélmenni send til Íraks á næstu mánuðum þar sem þeim verður ætlað að berjast við þarlenda uppreisnarhópa. Forsvarsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins segja að hervélmennið sé hinn fullkomni hermaður, fari hratt yfir, sé nákvæmt og geti leitað uppi andstæðingana án þess að stofna lífi og limum lifandi hermanna í hættu. Þá þurfi vélmenni hvorki að sofa né borða, ekki þurfa að klæða það eða þjálfa og því síður hvetja það til dáða eða borga því eftirlaun. Gallarnir eru hins vegar þeir að vélmennið kemst aðeins á um sjö kílómetra hraða á klukkustund og eftir um klukkustundartörn eru rafhlöðurnar búnar og vélmennið stöðvast. Þá þurfa hervélmennin auðvitað lifandi samstarfsaðila sem stjórnar því í gegnum litla myndavél og ákveður hvenær skotið skuli á andstæðinginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×