Erlent

Réttað yfir breskum pynturum

Fyrsta dómsmálið yfir breskum hermönnum sem sakaðir eru um að hafa pyntað írakska fanga stendur nú yfir í Bretlandi. Einn hermannanna hefur játað að hafa gengið í skrokk á einum fanga en neitar öðrum sökum. Alls eru þrír breskir hermenn fyrir rétti vegna málsins en þeir eru meðal annars sakaðir um að hafa ítrekað sparkað í íraKska borgara sem þeir höfðu í haldi, skipað þeim að afklæðast og að hafa niðurlægt þá á allan mögulegan hátt. Á ljósmyndum sem teknar voru í búðum nálægt borginni Basra árið 2003 kemur greinilega fram að meðferðin sem Írakarnir máttu þola var með öllu óeðlileg. Til dæmis er ljósmynd af tveimur Írökum sem eru naktir og hefur verið skipað að líkja eftir samförum. Írakarnir sem þarna voru í haldi, og hermennirnir eru sakaðir um að hafa niðurlægt og pyntað, voru menn sem höfðu verið handteknir fyrir að hafa stolið mjólkurdufti og mat. Aðeins einn hermannanna hefur játað hluta sakargiftanna, þ.e. að hafa í einu tilviki barið einn fanga, en þeir neita öllum öðrum ásökunum um pyntingar. Ekki er ljóst hvaða refsing bíður mannanna verði þeir fundnir sekir. Yfirmenn breska hersins segjast ekki geta tjáð sig um athæfið á þessu stigi málsins en segjast fordæma allar pyntingar. Bresk yfirvöld óttast að þetta mál verði til þess að vekja reiði uppreisnarhópa í Írak sem muni þá beina árásum sínum sérstaklega að breskum hersveitum í landinu. Ekkert lát er á árásunum í Írak. Að minnsta kosti tuttugu og sex liggja í valnum eftir fimm árásir í morgun sem gerðar voru á víð og dreif um Bagdad: fyrir framan ástralska sendiráðið, fyrir utan banka, lögreglustöð, sjúkrahús og flugvöllinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×