Erlent

Sprenging við ástralska sendiráðið

Bílsprengja sprakk við ástralska sendiráðið í miðborg Bagdad í morgun. Að minnsta kosti tveir létust í árásinni og sjö særðust en starfsmenn sendiráðsins eru allir heilir á húfi. Ekki urðu verulegar skemmdir á sendiráðinu fyrir utan nokkra glugga sem splundruðust. Að sögn ástralskra embættismanna í Bagdad er óljóst hvort sendiráðið hafi verið skotmark eða hvort tilviljun ein hafi ráðið því að ráðist var á það. Aðeins nokkrum mínútum síðar féllu a.m.k.átján í valinn í sjálfsmorðsárás við lögreglustöð í Bagdad og meira en þrjátíu særðust. Sex í viðbót eru svo sagðir hafa fallið í tveimur árásum til viðbótar í borginni í morgun.  Stjórnvöld í Írak hyggjast loka landamærum landsins í nokkra daga á meðan kosningar fara fram í landinu til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar tilraunir til að trufla kosningarnar. Þá verður ekki tilkynnt um kjörstaði í borginni Fallujah og nágrenni hennar fyrr en rétt fyrir kosningar. Vonast er til að með því móti hafi hryðjuverkamenn ekki nægan tíma til að skipuleggja árásir og að hálf milljón manna sem á svæðinu býr geti því gengið óhrædd að kjörborðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×