Viðskipti innlent

Bretar treysta íslenskum víkingum

Bretar hafa ákveðna tilhneigingu til að treysta ljóshærðum og bláeygðum eyjaskeggjum úr norðri segir Howard Davies, rektor London School of Economics, í tengslum við innrás íslenskra víkinga í breskt viðskiptalíf. Bretar hafi ekki ástæðu til að hafa áhyggjur en hér á landi þurfi vissulega að grípa til ráðstafana svo ekki verði hrun á markaði, snúist lukkuhjól íslenskra fjárfesta. Howard Davies er einnig fyrrverandi forstjóri breska fjármálaeftirlitsins. Að hans mati er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu íslenska hlutabréfamarkaðarins því hann virðist vera í loftbóluumhverfi núna, þótt hann segist reyndar ekki vera neinn sérfræðingur í að velja íslensk verðbréf. „Markaðurinn hefur rokið upp síðustu átján mánuði, þvert gegn tilhneigingunni annrs staðar,“ segir Davies. „Ég hefði áhyggjur ef ég ætti að sjá um reglurnar hérna.“ Mikil umræða hefur orðið um innrás íslenskra viðskiptamanna á markaði í Svíþjóð og Danmörku þar sem spurt sé hvaðan allir peningarnir komi, hvort menn séu með peningaverksmiðju í kjallaranum og hvort tengsl fjárfesta og fjármagnsfyrirtækja séu of náin. Í Bretlandi hefur umræðan ekki verið jafn neikvæð þrátt fyrir að þar séu fjárfestingar Íslendinga fyrirferðamiklar. Davies telur Breta hafa ákveðna tilhneigingu til að treysta ljóshærðum og bláeygðum eyjaskeggjum úr norðri, þó það hljómi næstum eins og rasismi. Hann segir þó tortryggni viðgangast hvað viðkemur kaupum á knattspyrnufélögum, enda sé það alltaf svo.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×