Viðskipti innlent

Siðferðið betra en í stjórnmálum

Hagsmunaárekstrar eru algengir í íslensku viðskiptalífi að mati stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Siðferði í viðskiptum hefur þó batnað undanfarin ár og er betra en siðferðið í stjórnmálum. Þetta kemur fram í nýlegri könnun sem Þröstur Olaf Sigurjónsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, gerði meðal stjórnenda fyrirtækja. 400 stjórnendum var sendur spurningalisti og svaraði ríflega þriðjungur. Sex af hverjum tíu telja að siðferði í viðskiptum hafi batnað undanfarin ár en fjórir af tíu eru því ósammála. Þá telja 57% að siðferði í viðskiptum hér á landi sé gott miðað við nágrannalönd okkar. Menn virðast mjög sammála þegar spurt er um hvort að hagsmunaárekstrar séu algengir í íslensku viðskiptalífi en 94% telja að svo sé. 88% segjast þekkja nokkur eða mörg dæmi um hagsmunaárekstra í viðskiptalífi hér á landi. Siðferði ber oft á góma í tengslum við stjórnmál og stjórnmálamenn og samkvæmt könnuninni telja 65% þeirra sem svöruðu að siðferði í viðskiptum væri betra en siðferðið í stjórnmálum. En hvað þýðir þetta og hvaða afleiðingar hefur slæmt viðskiptasiðferði? Samkvæmt þessari könnun telja 93% að slæmt viðskiptasiðferði komi í bakið á þeim sem það stunda síðar og mættu kannski einhverjir láta það sér að kenningu verða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×