Viðskipti innlent

1,5 milljarða samdráttur hjá SÍ

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands nam 65,6 milljörðum króna í lok desember og dróst saman um tæplega 1,5 milljarða króna frá því í nóvember. Samkvæmt hálffimmfréttum KB banka má rekja lækkunina til 4,4% gengisstyrkingu íslensku krónunnar. Samhliða útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands þann 2. desember síðastliðinn var gerð grein fyrir þeirri ákvörðun bankans að hætta skipulögðum gjaldeyriskaupum til eflingar gjaldeyrisforðanum. Litið er svo á að lausafjáraukning sé óheppileg við núverandi aðstæður þar sem mikið lausafé sé í umferð, auk þess sem gjaldeyrisforðinn er nú kominn í viðunandi stærð að mati Seðlabankans. Gjaldeyrisforðanum er einkum ætlað að tryggja greiðsluhæfi krónunnar fyrir öllum snöggum áföllum á gjaldeyrismarkaði. Á fyrri tíð var oft miðað við truflanir eða áföll í utanríkisviðskiptum og var þá oft miðað við að forðinn dygði fyrir um þriggja mánaða innflutningi. Í seinni tíð, á tímum frjálsra fjármagnsflutninga, hefur áherslan færst til þess að miða við að forðinn dugi, a.m.k. að einhverju leyti, fyrir erlendum skammtímaskuldum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×