Menning

Farandleikari á ferð og flugi

Pétur Eggerz Möguleikhússtjóri segist ekki gera neinar stórkostlegar ráðstafanir til heilsuræktar. "Það er helst að ég reyni að fara í sund á hverjum morgni. Ég fer ýmist í Breiðholtslaugina, sem er rétt hjá heimili mínu, eða Sundhöllina, sem er rétt hjá vinnunni. Kosturinn þar er að þar get ég lyft lóðum líka. Svo finnst mér líka gaman að fara út að ganga í Elliðaárdalinn sem er líka við bæjardyrnar hjá mér." Pétur þarf reyndar líka að hreyfa sig heilmikið í vinnunni. "Ég er alltaf að leika fyrir börn, sem er heilmikil hreyfing í sjálfu sér. Svo er ég alltaf á ferðinni með leiksýningar um borg og bý og það er heilmikil hreyfing að slá upp leikmynd og pakka niður, bera út í bíl og svo framvegis." Hvað mataræðið varðar segist Pétur vera að reyna að trappa sig niður eftir jólin. "Ég er búinn að safna svo góðum forða undanfarið að ég ætla að reyna að nýta mér hann núna á næstu vikum. Ég hugsa að mottóið verði "Hafa skal það sem hollara reynist nema þegar mann langar í hitt". Ég held samt að það myndi henta mér að hafa nammidag einu sinni í viku eins og börnin mín og er að hugsa um að taka upp þann sið með þeim."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×