Erlent

Árásin í Mosul sjálfsmorðsárás?

Bandarísk hermálayfirvöld rannsaka nú hvað olli því að sprenging varð í matsal bandarískrar herstöðvar í borginni Mosul í fyrradag. Tuttugu og tveir létust í árásinni, 18 Bandaríkjamenn og fjórir Írakar. Nú hafa meira en 1.300 bandarískir hermenn látist í Írak síðan innrásin var gerð. Í fyrstu var talið öruggt að flugskeyti hefði hæft matsalinn með fyrrgreindum afleiðinum. Nú eru einhverjar efasemdir uppi um það eftir að samtökin Ansar al-Sunnah, sem lýstu ábyrgð á árásinni, sögðu að um sjálfsmorðsárás hefði verið að ræða. Auk hinna látnu særðust 72 í árásinni á matsalinn, þar af 51 Bandaríkjamaður. Bandarískur læknir, sem starfað hefur á hersjúkrahúsi í Mosul í ellefu mánuði, segist ekki hafa séð hermenn jafn illa særða og eftir þessa árás. Margir séu með mjög slæm brunasár og líkamar þeirra, andlit og augu illa farin eftir sprengjuflísar. Samkvæmt CNN höfðu bandarískir hermenn í herstöðinni lýst áhyggjum af því hversu berskjaldaðir þeir væri fyrir árás í matsalnum sem er mjög illa búinn. Hann er sagður líkjast mest einhvers konar tjaldbúðum. Hin herskáu samtök Ansar al-Sunnah eru talin hafa tengsl bæði við hryðuverkaleiðtogann Abu Musab al-Zarqawi og al-Kaída. Samtökin, sem vilja að Írak verði stjórnað af bókstafstrúarmönnum samkvæmt islömskum lögum, hafa sagst standa að öðrum árásum í Írak sem og aftökum nokkurra gísla. Tiltölulega friðsælt var í Mosul, þriðju stærstu borg Íraks, eftir innrásina í fyrra. Á síðustu mánuðum hefur ástandið hins vegar farið síversnandi. Eftir innrás bandaríska hersins í Falluja, sem beindist gegn því að uppræta starfsemi uppreisnarmanna, hefur ástandið snarversnað í Mosul. Talið er að fjöldi uppreisnarmanna hafi flúið frá Falluja og hafi nú bækistöðvar í Mosul.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×