Erlent

Nýtt Abu Grahib hneyksli?

Bandarísk hernaðaryfirvöld kanna nú myndir sem virðast sýna sérsveitarmenn flotans beita írakska fanga pyntingum. Þær þykja minna um margt á hinar óhugnanlegu myndir frá Abu Grahib fangelsinu í Írak. Fréttamaður AP-fréttastofunnar fann myndirnar á vefsíðu þar sem myndaskipti fara fram og er öllum aðgengileg. Þær eru um fjörutíu talsins og ef um ófalsaðar myndir er að ræða má sjá á dagsetningu þeirra að þær voru teknar þó nokkrum mánuðum fyrr en myndirnar úr Abu Grahib fangelsinu, sem vöktu mikinn óhugnað um alla heimsbyggðina. Myndirnar sem nú hafa litið dagsins ljós sýna meðal annars glaðbeitta hermenn niðurlægja alblóðuga fanga á ýmsa vegu. Á sumum myndanna er byssum beint að handjárnuðum föngunum. Þær virðast vera teknar inni á írökskum heimilum eftir að hermenn hafa tekið íbúana til fanga. Á mörgum þeirra eru andlit hermannanna greinileg. Sérfræðingar í herrétti segja óljóst hvort hermennirnir á myndunum séu í raun að brjóta lög með framferði sínu en bandarísk hernaðaryfirvöld segjast munu rannsaka málið í þaula. Myndirnar veki upp fjölmargar spurningar um framferði bandarískra hermanna gagnvart stríðsföngum.        



Fleiri fréttir

Sjá meira


×