Erlent

25 Írakar hafa fallið í morgun

Tuttugu og fimm Írakar féllu í árásum hryðjuverkamanna í morgun, þar af ellefu lögreglumenn. Sjálfmorðsárás var gerð á mosku sjíta í Bagdad við föstudagsbæn í morgun. Svo virðist sem bíl hlöðnum sprengiefni hafi verið ekið á moskuna. Fjórtán féllu og fjöldi særðist. Árásin hefur vakið ótta um að trúarhópadeilur séu í uppsiglingu á milli súnníta og sjíta. Fyrr í morgun gerði hópur hryðjuverkamanna árás á lögreglustöð í suðvesturhluta borgarinnar. Þeir vörpuðu sprengjum á stöðina og ruddust síðar inn, eltu þar uppi lögreglumenn og drápu. Ellefu lögreglumenn lágu í valnum. Hryðjuverkahópur Abu Musabs al-Zarqawis, leiðtoga al-Kaída í Írak, sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að árásirnar hefðu verið verk samtakanna. Árásir hafa ekki verið tíðar undanfarið, frá því að hernaðaraðgerðum lauk í Fallujah, en það kemur þó ekki á óvart að árásir séu gerðar. Því hafði verið spáð að þeim myndi fjölga í aðdraganda frjálsra kosninga í landinu sem eiga að fara fram í lok janúar. Bandaríkjamenn hafa ákveðið að fjölga hersveitum sínum í landinu og verða að því loknum hundrað og fimmtíu þúsund bandarískir hermenn að störfum í Írak. Súnnítar hafa miklar áhyggjur af áframhaldandi árásum og áhrifum þeirra á kosningarnar. Áhrifamenn úr röðum þeirra hafa lýst þeirri skoðun sinni að fresta beri kosningunum en sjítar eru því algjörlega mótfallnir og segja það jafngilda sigri hryðjuverkamannanna. Bandaríkjamenn hafa þvertekið fyrir frestun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×