Menning

Alnæmi eykst mest meðal kvenna

"Konur og stúlkur smitast í sívaxandi mæli af HIV og alnæmi. Auðvitað mest í hinum fátækari löndum heims, en við Íslendingar þurfum líka að gæta okkar því smituðum gagnkynhneigðum konum hefur fjölgað hér á síðustu árum," segir Sigurlaug Hauksdóttir, yfirfélagsráðgjafi hjá Landlæknisembættinu. Hún heldur áfram: "Fjölgunin hefur verið mest meðal ungra kvenna 15-24 ára. Í þeim löndum þar sem ástandið er hvað verst er meira en helmingur stúlkna og kvenna með sjúkdóminn. Það er fyrst og fremst hin bága samfélagslega staða sem gerir stöðu þeirra viðkvæmari en karla. Vegna lítillar menntunar eru þær oft mjög illa upplýstar um sjúkdóminn og vita ekki hvernig þær eiga að verja sig. Hin samfélagslega staða þeirra gerir þeim líka erfiðara um vik að semja um notkun smokksins. Konur eru víða að smitast af eiginmönnum sínum og eru fleiri giftar konur smitaðar af sjúkdómnum en jafnöldrur þeirra sem eru ógiftar. Konur eru líka í mun meira mæli en karlar þolendur kynferðisofbeldis alls staðar í heiminum, en það eykur hættuna á smiti." Í framhaldinu bendir Sigurlaug aukna hættu á smiti hér á landi vegna sívaxandi ferðalaga Íslendinga til útlanda og segir landsmenn síst af öllu mega sofna á verðinum. "Meðan engin lækning finnst við sjúkdómnum þá verðum við að horfast í augu við hættuna," segir hún. ,,Við þurfum líka að geta rætt um kynlíf á opinn og heilbrigðan hátt í fjölskyldunum og í samfélaginu öllu og vera gagnrýnin á ýmis villandi og misvísandi skilaboð sem við fáum frá umhverfinu." Hún upplýsir í lokin að verið sé að þróa forvörn sem auðveldi konum að verja sig sjálfar gegn kynsjúkdómasmiti. "Þetta eru ákveðin veirudrepandi smyrsl sem lofa góðu en það vantar fjármagn til að flýta þeim rannsóknum. Það er því smokkurinn sem er áfram tryggasta vörnin. Þetta þarf unga fólkið og fólk almennt að hafa hugfast og bæði kynin verða að axla ábyrgð."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×