Erlent

Boðað til kosninga í Írak

Boðað hefur verið til þingkosninga í Írak þrítugasta janúar á næsta ári þrátt fyrir það upplausnarástand sem ríkir í landinu. Dagsetningin fyrir kosningarnar var kunngerð í dag en fyrirfram höfðu margir haft uppi varnaðarorð og efast um að kosningar geti verið óhlutdrægar við núverandi kringumstæður, á meðan átök standa enn yfir víðs vegar um landið. Bandaríkjastjórn er þó mikið í mun að halda í þá tímaáætlun sem búið er að setja niður fyrir lýðræðisþróun Íraks enda sé það eina leiðin til að færa landið aftur í hendur heimamanna og kalla bandaríska hermenn á endanum heim. Þingið sem verður kosið í lok janúar situr aðeins tímabundið. Helsta verkefni þingmanna verður að skipa nýja ríkisstjórn og samþykkja nýja stjórnarskrá. Þegar hafa alls 122 stjórnmálaflokkar skráð framboð fyrir kosningarnar og herferð stendur yfir til að fá írakskan almenning til að skrá sig til kosningaþátttöku. Vegna átaka hefur þó víða þurft að loka þessum skráningastöðum, aðallega um miðbik landsins á landssvæði súnníta, sem áður stjórnuðu landinu í gegnum Saddam Hússein. Súnní-múslimar hafa reyndar almennt verið mótfallnir því að boða til kosninga svo fljótt og herskáir hópar súnníta hafa hótað því að koma í veg fyrir að hægt verði að kjósa. Bandaríkjastjórn og írakska heimastjórnin hafa heitið því að allir Írakar fái að kjósa þrítugasta janúar, hvar sem er í landinu, einnig á átakasvæðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×