Menning

Mezzoforte og kór Langholtskirkju

Nýtt íslenskt kórverk, með djassbræðingi, verður flutt á tónleikum í Langholtskirkju á morgun. Hljómsveitin Mezzoforte og Kór Langholtskirkju verða þar leidd saman. 

Árni Egilsson er höfundur verksins, sem ber heitið „Kaleidoscope“. Árni hefur verið búsettur í Bandaríkjunum í nærri hálfa öld, hefur samið klassísk verk og jazztónlist, og er jafnframt einn af virtustu session hljóðfæraleikurum í Los Angeles. Kaleidoscope samdi hann sérstaklega fyrir Mezzoforte og Kór Langholtskirkju og segir það eitt hið erfiðasta sem hann hafi gert á ævinni því hann hafi ekki haft neina fyrirmynd.  

Mezzoforte skipar sérstakan sess í hugum Íslendinga enda opnaði hljómsveitin augu heimsins fyrir íslenskri tónlist þegar hún sló í gegn erlendis með laginu „Garden Party“ árið 1983. Ekki er þó annað að heyra en að Kór Langholtskirkju hafi einnig getið sér gott orð ytra. Árni segist nefnilega hafa heyrt lag með þeim spilað á klassískri útvarpsstöð í Los Angeles. Þetta sé til marks um að þótt landinn þekki ekki til einhverra íslenskra listamanna þá heyri útlendingar í þeim.

Það er þó ekki bara færni íslenskra tónlistarmanna sem togar í tónskáldið, en Árni segist hafa fullan hug á því að flytja aftur til Íslands. „Þetta er kannski eins og með Kyrrahafslaxinn - maður kemur heim til að leggjast í gröfina,“ segir Árni en vonar að það verði fyrr, fyrst og fremst vegna fegurðar landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.