Menning

Skemmtilegast á uppboðum

Jeppapartasala Þórðar á Tangarhöfða 2 er rúmlega tuttugu ára gamalt fyrirtæki. Björgvin Guðmundsson hefur starfað þar í átta ár og eignaðist fyrirtækið fyrir tveimur árum. Hann er mest einn að bardúsa en nýtur þó góðrar aðstoðar konu og sona. "Frúin er vakin og sofin yfir þessu og leysir mig af þegar með þarf og svo erum við að ala upp efnilega partasala," segir Björgvin hlæjandi. Björgvin sérhæfir sig í starfinu og kveðst aðallega versla með varahluti í japanska jeppa. "Ég er mest með í Nissan- og Suzuki- jeppana. Þetta hefur þróast út í það." En hvar fær hann þessa varahluti? "Ég kaupi bíla sem lenda í tjónum, ríf þá niður og sel úr þeim stykkin hvert og eitt," segir hann og kveðst ekki rétta boddýin en reyna að koma öðru í verð. Hann vill ekki gefa upp hvaða varahlutir séu vinsælastir! "Allt getur bilað en það er ekkert eitt stykki öðrum fremur," segir hann yfirvegaður. Hvað skyldi honum svo þykja skemmtilegast við þetta starf. "Ja, þetta er auðvitað eins og hver önnur vinna. Kannski er einna mest spennandi að fylgjast með uppboðunum, pæla í því sem þar er að finna og bjóða svo í, í kapp við aðra partasala. Því þótt við þekkjumst og bendum hver á annan ef við eigum ekki sjálfir það sem viðskiptavininn vantar þá yfirbjóðum við hvern annan óspart á uppboðunum." Samráð? "Nei," segir hann hlæjandi. "Hjá okkur er ekki um neitt ólöglegt samráð að ræða."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×