Erlent

Sprengjur dynja á Fallujah

Harðir bardagar geisa í Fallujah í Írak eftir að forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar heimilaði bandarískum hersveitum að gera árás á uppreisnarmenn úr röðum súnníta. Sprengjuárásir dynja á borginni og hafa fjölmargir uppreisnarmenn fallið. Neyðarlög hafa tekið gildi í Fallujah, sem er skammt vestur af Bagdad, og útgöngubann ríkir vegna átakanna í borginni en fjöldi írakskra uppreisnarmanna hefur þar aðsetur. Flugvellinum í Bagdad hefur verið lokað vegna ástandsins og lýst hefur verið yfir sextíu daga neyðarástandi í Írak. Bandarískar og írakskar hersveitir gerðu harða árás á lestarstöð í Fallujah til að undirbúa frekari aðgerðir hersveitanna inni í borginni og segja sjónarvottar að sprengingar og skothvellir heyrist nú víða. Forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar í Írak gaf grænt ljós á árásina á Fallujah en spenna hafði vaxið undanfarna sólarhringa og árásir verið gerðar í skjóli nætur. Um fjörutíu uppreisnarmenn hafa þegar verið felldir af írökskum hersveitum. Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar í Írak, segir vandann ekki liggja í Fallujah, Mosul eða Najaf heldur í flökkusveitum hryðjuverkamanna. Stjórnin sé staðráðin í að hreinsa Fallujaf af hryðjuverkasveitum sem samanstandi af erlendum sveitum af þeim toga auk hersveita Saddams Husseins sem átt hafi þátt í að kúga íröksku þjóðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×