Innlent

Fögur fyrirheit olíufélaganna

Skeljungur leggur áherslu á heiðarleika og sanngirni í viðskiptum og félagið styður frjálsa samkeppni og leitast við að stunda sanngjarna og siðlega samkeppni innan samkeppnislaga. Og félagið kemur ekki í veg fyrir að aðrir geti stundað frjálsa samkeppni. Þetta kemur fram í viðskiptareglum fyrirtækisins. Essó leggur líka áherslu á gott viðskiptasiðferði. Skeljungur gaf árið 1993, sama ár og samkeppnislögin tóku gildi, út bæklinginn „Markmið og framtíðarsýn“ þar sem eru tíunduð markmið félagsins, framtíðarsýn og siðareglur. Þar kemur fram að félagið beri ábyrgð gagnvart samfélaginu sem njóta eigi góðs af starfseminni og að sanngirni sé höfð að leiðarljósi í samskiptum við samstarfsaðila. Það er einnig fjallað um heiðarleika þar sem segir að Skeljungur leggi áherslu á heiðarleika og sanngirni í viðskiptum. Í siðareglum Skeljungs segir að fyrirtækið styðji frjálsa samkeppni og leitist við að stunda sanngjarna og siðlega samkeppni innan samkeppnislaga og komi ekki í veg fyrir að aðrir geti stundað fjálsa samkeppni. Olíufélagið Essó er líka með fögur markmið og segist vilja þjóna viðskiptavinum af alúð og lífskrafti, sem og að orðspor fyrirtækisins sé dýrmæt eign sem rækt sé lögð við. Rík áhersla er lögð á ítrustu kröfur um gott viðskiptasiðferði og að félagið virði lög og reglur. Olís virðist ekki vera með ítarlegar opinberar reglur en segir að Olís leggi áherslu á ábyrg, sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Svo mörg voru þau orð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×