Erlent

Enginn vafi á sigri Bush

MYND/AP
Andy Card, starfsmannastjóri Hvíta hússins, sagði fyrir stundu að enginn vafi væri á því að George Bush færi með sigur af hólmi í Ohio og ynni þar með forsetakosningarnar. Úrslitin í kosningunum í Bandaríkjunum munu líklega velta á úrslitum kosninganna í Ohio-ríki en staðfest niðurstaða liggur ekki enn fyrir þar. Bush er engu að síður reiðubúinn að lýsa yfir sigri í kosningunum en samkvæmt útgönguspám hefur hann hlotið 254 kjörmenn af þeim 270 sem hann þarf til þess að tryggja sér Hvíta húsið. John Kerry, frambjóðandi demókrata, hefur samkvæmt nýjustu fréttum hlotið 242 kjörmenn. CNN-sjónvarpsstöðin spáði Kerry hins vegar sigri í Wisconsin-ríki fyrir stundu en tíu kjörmenn eru þar í boði. Ef rétt reynist er Kerry því kominn með 252 kjörmenn   Kerry er ekki reiðubúinn að játa sig sigraðan þar sem enn er tvísýnt um úrslitin en John Edwards, varaforsetaefni demókrata, segir að tryggt verði að hvert einasta atkvæði verði talið. Þegar ríkir mikil sigurgleði í herbúðum Bush. 99 prósent atkvæða hafa verið talin í Ohio en á þessari stundu er ekki ljóst hvenær endanleg úrslit verða ljós, vegna vafaatkvæða. George Bush mun verða með yfirlýsingu í höfuðstöðvum repúblíkana síðar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×