Erlent

Miklu magni sprengiefna stolið

Nokkur hundruð tonn af sprengiefnum eru horfin úr vopnabúri Írakshers. Sprengiefnunum var stolið úr vopnabúri sem Alþjóða kjarnorkumálastofnunin hafði bent Bandaríkjaher sérstaklega á að hafa eftirlit með. Þjófar hafa ítrekað stolið sprengiefnum þar og hafa líkur verið leiddar að því að hluti efnisins hafi verið notaður í árásum vígamanna í Írak. Alls stálu þjófarnir um 380 tonnum af sprengiefnum. Sprengiefnið má nota til að útbúa hefðbundnar sprengjur sem eru nógu öflugar til að eyða stórum byggingum en einnig má nota hluta sprengiefnanna sem kveikibúnað í kjarnorkusprengju. Talsmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar staðfesti í gær að stofnuninni hefði verið tilkynnt um hvarf sprengiefnanna fyrir hálfum mánuði síðan. Þá hefði Mohamed ElBaradei, yfirmaður stofnunarinnar, ákveðið að gefa Bandaríkjastjórn nokkurn frest til að bregðast við tíðindunum og reyna að endurheimta sprengiefnin áður en hann greindi öryggisráði Sameinuðu þjóðanna frá þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×