Lífið

Uppáhaldshúsgagn

Árni Svavarsson teppahreinsunarmaður á sér uppáhaldshúsgagn sem hann keypti hjá Exo fyrir um það bil tíu árum. "Þetta er sófi sem er orðinn frægur í fjölskyldunni því hann býr yfir þeim galdri að svæfa fólk. Það hreinlega bregst ekki að þeir sem leggjast í hann eru sofnaðir á innan við tíu mínútum. Við berjumst oft hart um þennan sófa ég og strákarnir mínir tveir. Annar er reyndar fluttur að heiman, en hann leggst þarna endilangur í hvert skipti sem hann kemur í heimsókn." Árni segir hann og konuna sína hafa fallið fyrir sófanum af því að þeim þótti hann svo krúttlegur á sínum tíma. "Reyndar var einhver galli í áklæðinu þannig að ég skipti, en eftir það hefur hann virkað eins og svefntafla á fólk." Árni, sem rekur fyrirtækið Skúf sem er teppahreinsunarfyrirtæki, hreinsar ekki bara teppi heldur líka mottur og húsgögn. "Ég er búinn að reka þetta fyrirtæki í 20 ár og er menntaður í þessum fræðum," segir Árni hlæjandi. "Við hreinsum gólfteppi, húsgögn og handunnin stök teppi og mottur og veitum viðskiptavinum ráðleggingar um þrif og ekki síst val á teppum, en þar er að mörgu að hyggja," segir Árni, sem er mikill talsmaður þess að fólk noti meira teppi sem gólfefni. Hann bendir á könnun sem gerð var í Svíþjóð þar sem kom í ljós að á meðan aukning var á hörðum gólfefnum um 77% fjölgaði astmatilfellum um 300%. "Fólk heldur að teppi séu verri kostur vegna ryks og þyngra lofts en málið er að velja réttu teppin og meðhöndla þau rétt."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.