Innlent

Íkveikjur þrefaldast milli ára

Það sem af er ári hafa komið þrisvar sinnum fleiri íkveikjur inn á borð lögreglu en allt árið í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá tölfræðideild Ríkislögreglustjóra er þá átt við mál þar sem vísvitandi er kveikt í eigum, en ekki talin með tilvik þar sem kveikt er í rusli á sorphaugum eða við vinnustaði. Tólf slík mál hafa komið á borð lögreglu í ár, en fimm þeirra komu upp í Reykjavík. Í fyrra komu upp fjögur íkveikjumál, þrjú þeirra í höfuðborginni og árið þar áður komu upp sjö íkveikjumál, öll nema eitt í Reykjavík. Íkveikjur eru lögum samkvæmt litnar alvarlegum augum enda geta þær sett fjölda fólks í hættu. Í 164. grein almennra hegningarlaga kemur fram að valdi maður eldsvoða, sem hefur í för með sér almannahættu, þá varði það fangelsi ekki skemur en 6 mánuði. "Refsing skal þó ekki vera lægri en 2 ára fangelsi, hafi sá, er verkið vann, séð fram á, að mönnum mundi vera af því bersýnilegur lífsháski búinn eða eldsvoðinn mundi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna," segir í lögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×